154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:43]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Landbúnaðurinn er gríðarlega mikilvægur í okkar sameiginlega kjördæmi, Norðausturkjördæmi. Þetta er mjög stórt efnahagsmál, stórir atvinnuvegir, bæði starfsemi bænda og afurðastöðva og slíkt. Þegar þetta var skoðað fyrir nokkrum árum, þremur til fjórum árum, þá var þetta 30 milljarða velta á svæðinu. Í Eyjafirði var veltan hjá mjólkurbændum um 5 milljarðar fyrir einhverjum þremur til fjórum árum, hjá 70 til 80 kúabændum. Sem dæmi þá er mjög mikilvægt að það starfsumhverfi sé gott.

Mig langar síðan rétt að koma inn á strandveiðarnar. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig þetta hefur þróast eftir að því var breytt. Ég hef talað fyrir því að fara í svipað kerfi og við vorum með. Það hefur hallað gríðarlega mikið á Norðausturkjördæmi, sérstaklega norðausturhornið, á síðustu árum það sem snýr að strandveiðum og mikið af aflanum hefur flust til. Ég held að það sé rétt að við förum í að endurskoða það (Forseti hringir.) og reyna að afla meira réttlætis í því gagnvart strandveiðum landsins.